Óflokkað

LOKAÐI SIG AF INNI Í ÍBÚÐ SINNI

0

Harbinger sýningarými Freyjugötu 1. kynna Vasily Mikhailov (1973) sem næsta myndlistarmann sýningarraðarinnar „Eyja / Island.” Sýningarröðin samanstendur af myndlistarmönnum sem eiga það sameiginlegt að fást við eyjur sem stað sem vegur salt milli innikróunar og afturhaldssemi annars vegar og hins vegar paradísar sem upphefur andann og veitir hugarró.

Hugmyndin um eyju er vissulega teygjanleg en í tilviki Vasily mætti kannski tala um eyju sjálfsins. Innsetningin „Innra” þróaðist út frá reynslu Vasily við að loka sig af inni í íbúð sinni. Með því að hljóðeinangra alla veggi með þar til gerðum hljóðdrepandi strúktúrum tókst honum að skapa rými þar sem ríkti algjör þögn og ekkert endurvarp var á hljóðbylgjum. Við þessar aðstæður fullkomnaðist einveran. Vasily lýsti einangruninni á þennan veg:

„Í fyrstu yfirgnæfðu hljóð líkamans allt, hjartað, lungun, ég heyrði jafnvel í blóðinu þrýstast um æðarnar. En svo var eins og að gólfið hyrfi og ég var staddur í algjöru tómarúmi sem að hafði enga afmörkun. Ég flaut um í tóminu og fann hvernig ég stækkaði og stækkaði þar til ég var allt um liggjandi. Þegar engar hljóðbylgjur skullu á húðinni missti líkaminn lögun sína og varð loftkenndur, sem gerði mér kleift að líða áfram um sjálfan mig áreynslulaust. Minningar formgerðust í myrkrinu, hlóðust upp og soguðust hver að annarri. Í alheimi sjálfs mín sá ég kjarna minn líkt og litla eyju umlukta myrkri. Eyjan ég.“ – Vasily

Sýningin stendur til 8. apríl 2017. Sýningarstjórar eru Una Margrét Árnadóttir & Unndór Egill Jónsson.

Skrifaðu ummæli